Samningur Capelli Sport Rey Cup og OZ

Capelli Sport Rey Cup – alþjóðlegt knattspyrnumót í Reykjavík hefur gert tímamótasamning við OZ um að sýna beint á vefsvæði sínu og í OZ-appinu frá völdum leikjum mótsins.
Samningur þess efnis var undirritaður 18.06.2019.

Með þeirri tækni sem OZ býður upp á verður hægt að horfa á leiki frá nokkrum sjónarhornum og með endurteknum atriðum. Einnig er möguleiki á að hafa þuli til að lýsa beint leikjunum. Nokkrar myndavélar verða á völdum völlum og sýnt verður beint frá öllum úrslitaleikjum á sunnudeginum. 

Þessi þjónusta OZ mun aðeins gera mótið skemmtilegra og meira spennandi og og stjórn Capelli Sport Rey Cup kann OZ bestu þakkir fyrir.

Þetta gerir þeim fjölmörgu innlendu og erlendu stuðningsmönnum, aðstandendum og áhagendum liðanna sem ekki komast á mótið tækifæri að fylgjast með sínu liði á mótinu. Einnig gerir þetta liðum kleift að fylgjast með andstæðingum sínum þó svo þau séu ekki á svæðinu að spila.

Capelli Sport Rey Cup mótið er einstakt á Íslandi. Á því leika innlend og erlend lið í þriðja og fjórða flokki stelpna og stráka. Þetta er aðeins annað knattspyrnumótið í yngri flokkum sem bæði stelpur og strákar taka þátt, hitt er VÍS-mót Þróttar. 
Erlendu liðin sem taka þátt setja sterkan svip á mótið og hafa þau mörg hver komið um mjög langan veg. Í ár verður í fyrsta sinn lið frá Afríku þátttakandi.

 Á Capelli Sport ReyCup í ár verða 11 erlend lið og um 80 innlend lið. Þetta er í 18. skiptið sem mótið er haldið og er reiknað með 1.200-1.300 þátttakendum á mótinu í ár sem haldið er frá 24.-28. júlí í hjarta Reykjavíkur – dalnum góða hjá Þróttaraheimilinu.